Er þetta hugsanlega sovéska lendingarfarið Mars 3?
NASA/JPL-Caltech/UArizona
Er þetta hugsanlega sovéska lendingarfarið Mars 3?
ESP_031036_1345
Enska   

twitter 
Árið 1971 sendu Sovétríkin tvö könnunarför til Mars: Mars 2 og Mars 3. Báðir leiðangrar samanstóðu af brautarfari og lendingarfari og skiluðu bæði brautarförin niðurstöðum þótt yfirborð Mars hafi verið hulið hnattrænum rykstormi. Mars 2 lendingarfarið brotlenti en Mars 3 lenti mjúklega á yfirborði Rauðu reikistjörnunnar, fyrst geimfara. Því miður rofnaði samband við lendingarfarið af einhverjum ástæðum aðeins 14,5 sekúndum eftir lendinguna.

Fyrirhugaður lendingarstaður var í Ptolmaeus gígnum á 45. breiddargráðu suður og 202. lengdargráðu austur. Í nóvember 2007 tók HiRISE flennistóra mynd af staðnum. Sú mynd, PSP_006154_1345, er 1,8 milljarðar pixlar svo það þyrfti um það bil 2.500 dæmigerða tölvuskjái til að skoða myndina í heild sinni í fullri upplausn. Fyrir skömmu fundust á myndinni fyrirbæri á yfirborðinu sem gætu verið vélbúnaður Mars 3.

Rússinn Vitali Erogov er stofnandi og stjórnandi stærsta netsamfélags Rússa um MSL Curiosity. Þátttakendur í þessu samfélagi tóku höndum saman og leituðu að Mars 3 á myndinni en búist mátti við að finna fallhlífina, hitaskjöldinn, lendingareininguna og sjálft lendingarfarið. Erogov útbjó líkön sem sýndu hvernig þessi búnaður liti út í upplausn HiRISE (25,3 cm/pixel). Hann kannaði gaumgæfilega ótal smáatriði á þessari stóru ljósmynd og fann nokkur fyrirbæri sem lofuðu góðu á suðurhluta svæðisins. Stærð og lögun allra þessara hugsanlegu hluta úr Mars 3 komu heim og saman við það sem búast mátti við og dreifast að auki um yfirborðið eins og ætla mætti eftir lendingarferlið.

Dr. Alexander „Sasha“ Basilevsky var hópnum innan handar en hann er þekktur í hinu alþjóðlega vísindasamfélagi. Basilevsky hafði samband við Alfred McEwen sem hefur umsjón með rannsóknum HiRISE og lagði til að fleiri myndir yrðu teknar af svæðinu. Þessa mynd tók MRO svo þann 10. mars 2013. Vonast var til að á myndinni kæmi þessi mögulegi vélbúnaðar fram í lit, auk þess sem önnur birtuskilyrði gætu veitt betri upplýsingar. Á myndunum sjást engin litafrávik sem er skiljanlegt eftir rykfall í meira en 40 ár. Á sama tíma höfðu Basilevsky og Erogov samband við rússnesku verkfræðingana og vísindamennina sem unnu við Mars 3 til að afla frekari upplýsinga.

Það sem hugsanlega er fallhlífin er augljósasta og um leið óvenjulegasta kennileitið á myndunum. Um er að ræða óvenju bjartan blett miðað við svæðið í heild og mælist um 7,5 metrar á breidd. Fallhlífin er 11 metrar að þvermáli svo þetta kennileiti kemur vel heim og saman við hana. Á seinni HiRISE myndinni virðist sem stærri hluti fallhlífarinnar hafi lýst upp, líklega vegna betri birtuskilyrða á yfirborðinu. Einnig gæti fallhlífin hafa lýst upp á liðnum árum eftir að ryk fauk af henni. HiRISE sýndi einmitt nýverið fram á að fallhlíf MSL hefur færst til í vindi og í leiðinni gæti ryk hafa fokið af henni. Fallhlíf Viking 1 lendingarfarsins (1976) sést enn sem bjartur blettur á yfirborðinu svo það er vel hugsanlegt að ögn eldri fallhlíf sé líka enn sjáanleg. Þessi bjarti blettur er vissulega óvenjulegur — engir sambærilegir blettir sjást annars staðar á myndunum eins og búast mætti við ef um náttúrulegan blett væri að ræða. Á seinni myndinni, þar sem birtan kemur nánast úr hvirfilpunkti, er þetta augljóslega bjartasti bletturinn. Fyrirbærið er ólíkt fallhlífum bandarísku Mars-faranna en þær eru ílangar á yfirborðinu vegna láréttrar færslu bakhlífanna sem eru fastar við fallhlífarnar. Sovéska hönnunin leiddi til lóðréttrar lendingar svo fallhlífin ætti að vera meira hringlaga á yfirborðinu.

Lendingareiningin, eða bakflaugin, var fest við lendingarfarið með keðju. Á einum stað sést fyrirbæri sem gæti verið keðjan. Að minnsta kosti er það línulegt og í réttri stærð. Erogov var sagt að keðjan hefði verið 4,5 metrar að lengd sem fellur vel að línunni á myndinni (4,8 metrar) en hún gæti hafa dregist eftir yfirborðinu og raskað því. Skammt frá þessari hugsanlegu lendingareiningu er fyrirbæri sömu stærðar og lögunar og lendingarfarið sjálft, með fjóra opna arma.

Mynd af því sem gæti verið hitaskjöldurinn passar líka við skjaldarlaga fyrirbæri í réttri stærð, sem að hluta til er grafið.

Öll þessi fyrirbæri og útlit þeirra á yfirborðinu passa ótrúlega vel við það sem búast mætti við út frá lendingu Mars 3. Hins vegar er ekki hægt að útiloka aðrar skýringar á þessum fyrirbærum. Gera þarf frekari greiningu á gögnunum og afla fleiri mynda til að skilja betur þrívíða lögun þessara fyrirbæra en það gæti hjálpað til við að staðfesta þessar túlkanir.

Þýðing: Sævar Helgi Bragason
 
Dagsetning myndatöku:
10 mars 2013

Staðartími á Mars:
2:42 PM

Breiddargráða (miðjuð):
-45°

Lengdargráða (austur):
202°

Fjarlægð til yfirborðs:
254 km

Kvarði upprunalegu myndarinnar:
25 cm/díl (með 1 x 1 dílaknipping) svo ~76 cm breiðir hlutir sjást

Kvarði kortavörpunar:
25 cm/díl

Kortavörpun:
Equirectangular (og norður snýr upp)

Útgeislunarhorn:
10°

Fasahorn:
48°

Inngeislunarhorn sólar:
38°, þar sem sólin var um 52° yfir sjóndeildarhring

Sóllengd:
280°

JPEG
Gráskali
Kortavörpun  Án Kortavörpunar

IRB litur:
Kortavörpun  Án Kortavörpunar

IRB blandað:
Kortavörpun

RGB blandað:
Kortavörpun

RGB litur:
Án Kortavörpunar

JP2 (NIÐURHAL)
Gráskali:
Kortavörpun (238 MB)

IRB litur:
Kortavörpun (203 MB)

JP2 EXTRA
Gráskali:
Kortavörpun  (101 MB),
Án kortavörpunar  (149 MB)

IRB litur:
Kortavörpun  (44 MB)
Án kortavörpunar  (194 MB)

IRB blandað:
Kortavörpun  (72 MB)

RGB blandað:
Kortavörpun  (68 MB)

RGB litur:
Án kortavörpunar  (187 MB)
Aukaupplýsingar um mynd
Lýsigögn gráskala
Lýsigögn litmynda
Lýsigögn blandaðs IRB
Lýsigögn blandaðs RGB
EDR myndir

Myndir
Hægt er að draga alla myndahlekki yfir í HiView eða smella á þá til að sækja

Notkun á myndum
Allar ljósmyndir frá HiRISE sem aðgengilegar eru á þessari síðu, eru í almannaeigu og njóta því ekki höfundarverndar: Engin takmörk eru sett á notkun þeirra, hvorki meðal almennings, fjölmiðla eða vísindastofnana. Við óskum aðeins eftir að myndhöfunda sé getið, ef mögulegt er:
Mynd: NASA/JPL-Caltech/UArizona

Eftirskrift
Jet Propulsion Laboratory NASA, deild innan California Institute of Technology í Pasadena í Kaliforníu, hefur umsjón með stýringu Mars Reconnaissance Orbiter fyrir hönd NASA Science Mission Directorate í Washington. HiRISE myndavélin var smíðuð hjá Ball Aerospace and Technology Corporation en er starfrækt af University of Arizona.