Myndir af halastjörnunni C/2013 A1 Siding Spring
Myndir af halastjörnunni C/2013 A1 Siding Spring

Halastjarnan Siding Spring, sem á rætur að rekja til Oortsskýsins, komst í návígi við Mars og Mars Reconnaissance Orbiter (MRO) sunnudaginn 19. október 2014. HiRISE náði myndum í hárri upplausn þegar fjarlægðin var minnst, eða um 138.000 kílómetrar. Upplausn myndarinnar er 138 metrar á myndeiningu (díl).

Mælingar frá Jörðinni bentu til að kjarni halastjörnunnar væri aðeins um 1 kílómetri á breidd. Bestu myndir HiRISE sýna að bjartasti hluti kjarnans er aðeins 2-3 myndeiningar sem bendir til að kjarninn sé innan við 0,5 km að stærð. Þetta er fyrsta myndin af kjarna langferðahalastjörnu.

Á þessari samsettu mynd sjást tvær bestu myndir HiRISE af halastjörnunni. Efst eru myndir með fullu styrksviði sem sýna kjarnanna og bjartan hjúp við kjarnann. Þar fyrir neðan eru útgáfur þar sem búið er að lýsa upp daufari hluta hjúpsins sem mettar innri hlutann.

Aldrei hefði tekist að ná þessum nærmyndum nema fyrir mjög nákvæma stýringu verkfræðinga Lockheed-Martin í Denver á MRO geimfarinu, sem byggði á útreikningum verkfræðinga við JPL á braut halastjörnunnar. Tólf dögum áður en halastjarnan var í námunda við Mars tók HiRISE þrjár myndir af halastjörnunni sem varla sást fyrir myndsuði. Á þeim sást að halastjarnan var ekki nákvæmlega á þeim stað sem spár gerðu ráð fyrir! Þessar upplýsingar reyndust mjög gagnlegar til að betrumbæta bæði staðsetningu halastjörnunnar og tímasetningu við Marsnánd. Án þeirra hefði halastjarnan sennilega verið utan við myndsvæðið á bestu myndum HiRISE.

Alfred McEwen
Þýðing: Sævar Helgi Bragason